Innlent

Væntir þess að hertar aðgerðir taki gildi strax í fyrramálið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Vísir/vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gerir ráð fyrir að tillögur sóttvarnalæknis um hertar veiruaðgerðir á höfuðborgarsvæðinu verði samþykktar og taki gildi strax í fyrramálið. Þetta sagði forsætisráðherra í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2. 

Katrín sagði að tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis hefðu borist ríkisstjórninni. Hún ætti von á því að heilbrigðisráðherra samþykkti þær og myndi birta auglýsingu sína í kvöld. Reglurnar myndu þannig að öllum líkindum taka gildi strax í fyrramálið. 

Katrín kvaðst hafa miklar áhyggjur af því hversu hratt og mikið smituðum hefur fjölgað síðustu daga. Mikilvægt væri að taka stöðuna föstum tökum núna. 

Þá væntir Katrín þess að landsleikur Íslands og Rúmeníu muni fara fram á Laugardalsvelli á fimmtudag. Hins vegar verði að öllum líkindum engir áhorfendur á leiknum heldur þurfi landsmenn að fylgjast með honum heima í stofu. 

Sóttvarnalæknir lagði það til við ráðherra í dag að tekin verði aftur upp tveggja metra fjarlægðarregla á höfuðborgarsvæðinu, ýmis starfsemi verði stöðvuð og hert verði á grímuskyldu. Þetta verða því aðgerðirnar sem allt bendir til þess að taki gildi á höfuðborgarsvæðinu á morgun.

Viðtal Heimis Más Péturssonar fréttamanns við Katrínu Jakobsdóttur í kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum ofar í fréttinni. Viðtalið byrjar u.þ.b. á mínútu 2:10.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×