Innlent

Fólk frá höfuð­borginni haldi sig til hlés í tvær vikur eftir komuna á Austur­land

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Egilsstöðum. Aðeins einn er nú í einangrun með kórónuveiruna á Austurlandi.
Frá Egilsstöðum. Aðeins einn er nú í einangrun með kórónuveiruna á Austurlandi. Vísir/Vilhelm

Fólk sem kemur á Austurland frá höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir er beðið um að halda sig til hlés í fjórtán daga eftir komuna austur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi í dag.

„Aðeins þannig, meðan aðrar ráðstafanir hafa ekki verið gerðar, getum við með góðu móti tryggt að smit berist ekki á milli,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur einnig fram að aðgerðastjórn viti til þess að margir séu áhugasamir um að færa sig milli landshluta í ljósi þess hversu margir eru smitaðir af kórónuveirunni á höfuðborgarsvæðinu, hvar hertar reglur vegna veirunnar tóku einmitt gildi í dag.

Því sé tilefni til að árétta þau tilmæli sóttvarnayfirvalda að ferðast ekki frá höfuðborgarsvæðinu og út á land nema nauðsyn beri til. Komi slík tilvik upp er fólk beðið um að gæta sérstaklega að sér í samskiptum við aðra og halda sig til hlés í fjórtán daga eftir komu á Austurland, líkt og áður segir.

Þá undirstrikar aðgerðastjórn að veiðiferðir, vinnustaðaferðir og fleira sambærilegt teljist ekki til brýnna erinda. Aðeins einn er í einangrun með Covid-19 á Austurlandi og fimm í sóttkví. 685 eru í einangrun á höfuðborgarsvæðinu og 3007 í sóttkví, samkvæmt tölum dagsins á Covid.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×