Skoðun

Eflum þjónustu og stuðning við börn sem sætt hafa of­beldi

Ásmundur Einar Daðason skrifar

Erfiðleikar og áföll í samfélögum, líkt og Covid-19 faraldurinn sem við og heimurinn allur höfum glímt við lungann úr þessu ári, auka hættuna á ofbeldi gegn börnum og við höfum því miður séð aukningu í þá átt hér á landi á undanförnum mánuðum. Þó að Covid-19 veiran virðist ekki herja á börn með sama hætti og ýmsa aðra hópa þá stöndum við engu að síður fyrir framan miklum áskorunum af völdum faraldursins á öryggi og velferð barna. Daglegt líf fjölskyldna hefur breyst mikið á undanförnum mánuðum og sóttvarnaraðgerðir hafa, þrátt fyrir mikilvægi sitt, raskað rútínu og öryggi margra barna.

Í gær undirrituðum við dómsmálaráðherra styrk til Barnahúss, sem sinnir málefnum barna sem sætt hafa kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi, að upphæð 35 milljónir króna sem nýtist til styttingar biðlista ásamt því að efla starfsemina verulega. Styrkurinn er liður í aðgerðapakka stjórnvalda sem settur var saman til þess að bregðast við afleiðingum Covid-19 faraldursins og er afurð vinnu aðgerðateymis gegn ofbeldi sem skipað var í maí af okkur dómsmálaráðherra.

Styrkurinn gerir Barnahúsi kleift að fjölga ráðgjöfum og þannig stytta biðlista, en um fimm mánaða biðlisti er sem stendur eftir þjónustu Barnahúss. Fyrsta greiðsla vegna styrksins var veitt í sumar og hefur nýr ráðgjafi þegar hafið störf. Ásókn í þjónustu Barnahúss hefur aukist undanfarna mánuði, auk þess sem þjónustan hefur verið útvíkkuð til að sinna einnig börnum sem sætt hafa líkamlegu ofbeldi. Þá mun styrkurinn nýtast til að tryggja betur aðgengi að þjónustu óháð staðsetningu skjólstæðinga og starfsmanna, en Covid-19 faraldurinn hefur sýnt fram á nauðsyn þess.

Ofbeldi gegn börnum hefur alltaf alvarlegar afleiðingar og það krefst þess að við tryggjum hraða málsmeðferð og fullnægjandi stuðning við þau börn sem orðið hafa fyrir ofbeldi og fjölskyldur þeirra. Með því að styrkja við starfsemi Barnahúss eflum við þjónustu og stuðning við þau börn sem sætt hafa ofbeldi, ásamt því að stytta biðina eftir hjálp sem er gríðarlega mikilvægt.

Höfundur er félags- og barnamálaráðherra.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×