Erlent

Neyðarástandi lýst yfir í Madrid til að hefta faraldurinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Heilbrigðisstarfsmaður hitamælir karlmann við skimunarstað fyrir kórónuveirunni í Vallecas-hverfi í Madrid á miðvikudag. Ferðabannið sem ríkisstjórnin lýsti yfir í dag nær til um 4,8 milljóna íbúa borgarinnar og nærliggjandi byggða.
Heilbrigðisstarfsmaður hitamælir karlmann við skimunarstað fyrir kórónuveirunni í Vallecas-hverfi í Madrid á miðvikudag. Ferðabannið sem ríkisstjórnin lýsti yfir í dag nær til um 4,8 milljóna íbúa borgarinnar og nærliggjandi byggða. AP/Manu Fernández

Spænska ríkisstjórnin lýsti yfir neyðarástandi í höfuðborginni Madrid sem verður í gildi næstu fimmtán dagana til þess að ná tökum á útbreiðslu kórónuveirufaraldursins þar. Borgaryfirvöld hafa barist gegn kröfum stjórnvalda og féll dómur þeim í vil gegn sóttvarnaaðgerðum í síðustu viku.

Takmarkanir verða nú settar á ferðir fólks í Madrid og níu borgum í nágrenni hennar. Ríkisstjórn sósíalista lagði þær upphaflega á fyrir viku en dómstóll felldi þær úr gildi í gærkvöldi að kröfu borgaryfirvalda. 

Pedro Sánchez, forsætisráðherra, brást snöggt við dómsniðurstöðunni með því að lýsa yfir neyðarástandinu en Spánverjar eiga þriggja daga helgi vegna frídags á mánudag.

Borgaryfirvöld í Madrid hafa sagt að nýjum smitum fari fækkandi og þær takmarkanir sem séu þegar í gildi beri árangur. Nýgengi smita í borginni er nú 563 á hverja hundrað þúsund íbúa undanfarna fjórtán daga, tvöfalt hærra en landsmeðaltalið og fimmfalt hærra en meðaltalið í Evrópu í þarsíðustu viku.

Dómstóllinn í Madrid úrskurðaði í gær að ferðatakmarkanir á borgarbúi gætu verið nauðsynlegar til að hefta útbreiðslu faraldursins en að undir núgildandi lögum brytu þær grundvallarréttindi borgaranna.

Hann leyfði þó sex manna samkomubanni og takmarkani á opnunartíma og og starfsemi veitingastaða, bara og verslana að standa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×