Erlent

Læknir for­setans segir hann ekki smita lengur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Trump ávarpaði stuðningsmenn sína af svölum Hvíta hússins í gær. Síðar um daginn tilkynnti læknir hans um að Trump væri ekki lengur smitandi af kórónuveirunni.
Trump ávarpaði stuðningsmenn sína af svölum Hvíta hússins í gær. Síðar um daginn tilkynnti læknir hans um að Trump væri ekki lengur smitandi af kórónuveirunni. Samuel Corum/Getty

Sean Conley, læknir Donalds Trump Bandaríkjaforseta, hefur gefið út minnisblað þar sem hann greinir frá því að hann telji forsetann ekki lengur eiga á hættu að smita aðra af kórónuveirunni. Hann þurfi því ekki lengur að sæta einangrun.

Minnisblaðið var gefið út í gær, eftir að forsetinn kom fram á svölum Hvíta hússins og hélt ræðu fyrir hóp stuðningsmanna sinna. BBC greinir frá.

Trump greindist með veiruna í upphafi þessa mánaðar. Í minnisblaði læknis Hvíta hússins segir að veirumagnið í líkama forsetans fari minnkandi, og ekkert bendi til þess að hann geti smitað aðra. Það kemur þó hvergi fram hvort forsetinn prófaðist neikvæður fyrir veirunni við síðustu sýnatöku.

Trump fór að finna fyrir einkennum Covid-19 fyrir tíu dögum síðan. Degi síðar, 2. október, var hann færður á Walter Reed-spítalann, þar sem hann dvaldist í þrjár nætur.

Eins og áður sagði ávarpaði forsetinn stuðningsmenn sína af svölum Hvíta hússins í gær. Þar sagði hann að sér liði vel og fullyrti að hann væri hættur að taka nokkurs konar lyf við Covid-19.

Trump sækist nú eftir endurkjöri til embættis forseta Bandaríkjanna í umboði Repúblikanaflokksins og etur þar kappi við Joe Biden, fyrrverandi varaforseta og frambjóðanda Demókrataflokksins. Kosningarnar fara fram 3. nóvember næstkomandi, en undanfarið hefur Biden mælst með talsvert forskot á Trump á landsvísu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×