Fótbolti

Sex Inter-menn með kórónuveiruna og Mílanó-slagurinn í hættu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ashley Young er með kórónuveiruna.
Ashley Young er með kórónuveiruna. getty/Giuseppe Maffia

Inter greindi frá því í gær að Ashley Young hefði greinst með kórónuveiruna. Hann er sjötti leikmaður Inter sem fær veiruna á undanförnum dögum.

Inter á að mæta grönnum sínum og erkifjendum, AC Milan, á laugardaginn en óttast er að sá leikur geti ekki farið fram.

Auk Youngs hafa samherjar hans, Radja Nainggolan, Roberto Gagliardini, Ionut Radu, Milan Skriniar og Alessandro Bastoni, greinst með kórónuveiruna.

Um þarsíðustu helgi gat leikur Juventus og Napoli ekki farið fram því lið Napoli mátti ekki ferðast til Tórínó eftir að tveir leikmenn liðsins greindust með veiruna. 

Leikmenn Juventus voru mættir á völlinn þegar tilkynnt var að leiknum hefði verið frestað. Ekki er ljóst hvort hann verður færður á annan leikdag eða hvort Juventus verður dæmdur sigur.

Inter á svo að hefja leik í Meistaradeild Evrópu gegn Borussia Mönchengladbach á miðvikudaginn í næstu viku.

Inter er með sjö stig eftir þrjár umferðir í ítölsku úrvalsdeildinni. Liðið hefur unnið tvo leiki og gert eitt jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×