Fótbolti

Segir Ronaldo hafa brotið sóttvarnareglur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo í leik gegn Frakklandi í Þjóðadeildinni um helgina.
Cristiano Ronaldo í leik gegn Frakklandi í Þjóðadeildinni um helgina. getty/Aurelien Meunier

Íþróttamálaráðherra Ítalíu, Vincenzo Spadafora, segir að Cristiano Ronaldo hafi brotið sóttvarnareglur þegar hann flaug frá Lissabon til Tórínó.

Ronaldo greindist með kórónuveiruna á þriðjudaginn og yfirgaf í kjölfarið herbúðir portúgalska landsliðsins og fór aftur til Ítalíu þar sem hann leikur með Juventus. Spadafora segir að Ronaldo hafi brotið sóttvarnareglur þegar hann fór aftur til Ítalíu.

„Já, ég held það, ef hann hefur ekki fengið sérstakt leyfi frá heilbrigðisyfirvöldum,“ sagði Spadafora. Juventus tók til varna fyrir sinn mann og sagði að hann hefði einmitt fengið sérstakt leyfi til að ferðast aftur til Ítalíu.

Ronaldo er nú í einangrun og verður fjarri góðu gamni þegar Juventus mætir Crotone í ítölsku úrvalsdeildinni um helgina. Hann missir einnig af leik gegn Dynamo Kiev í Meistaradeild Evrópu.

Ronaldo þarf að vera í einangrun í tíu daga og fá neikvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi áður en hann getur byrjað að æfa með Juventus-liðinu á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×