Napoli hafði betur á móti Benevento í bræðraslag í ítölsku deildinni í gær. Benevento komst í 1-0 en Napoli svaraði með tveimur mörkum og vann leikinn 2-1.
Stærsta frétt leiksins var þó eflaust að bræður skoruðu á móti hvor öðrum í honum.
Roberto Insigne kom Benevento í 1-0 á 30. mínútu leiksins en eldri bróðir hans, Lorenzo, jafnaði metin fyrir Napoli á 60. mínútu. Andrea Petagna skoraði svo sigurmarkið sjö mínútum síðar.
Brothers Roberto and Lorenzo Insigne both scored in the same Serie A game today pic.twitter.com/PXinEOU8rs
— B/R Football (@brfootball) October 25, 2020
Lorenzo Insigne er 29 ára gamall og þremur árum eldri en Roberto. Lorenzo er fyrirliði Napoli en Roberto yfirgaf félagið í fyrra.
„Eftir leikinn þá sagði ég honum að vinstri fóturinn minn væri betri en hans,“ sagði Lorenzo Insigne í léttum tón eftir leikinn.
„Við föðmuðumst líka því þetta var spennandi dagur fyrir okkar fjölskyldu. Ég er ánægður með markið mitt og óska bróður mínum líka til hamingju með markið sitt,“ sagði Lorenzo.
„Ég er mjög hamingjusamur en biðst fyrirgefningar á því að fyrsta markið sitt í Seríu A hafi komið á móti bróður mínum. Það var góð tilfinning að spila á móti bróður mínum og Napoli, sem er liðið frá borginni minni. Við erum samt leiðir yfir því að tapa leiknum,“ sagði Roberto Insigne.
Lorenzo Insigne and his younger brother Roberto were on opposite sides of the scoresheet as Napoli beat Benevento 2-1 today https://t.co/CP6RbPSmaM pic.twitter.com/u7RQ4GigES
— BBC Sport (@BBCSport) October 25, 2020
Roberto Insigne náði aðeins að spila tvo leiki með Napoli liðinu og var loksins seldur eftir að hafa farið ítrekað á láni til annarra liða.
Lorenzo Insigne hefur aftur á móti skorað 68 mörk í 273 deildarleikjum með Napoli en hann er á sínu níunda alvöru tímabili með félaginu.
Sigurinn var mikilvægur fyrir Napoli liðið sem er nú einu stigi á eftir toppliði AC Milan.