Andri Fannar Baldursson var í fyrsta sinn í byrjunarliði Bologna þegar liðið vann B-deildarlið Reggina, 2-0, í 3. umferð ítölsku bikarkeppninnar í fótbolta í dag.
Þetta var níundi leikur Andra fyrir aðallið Bologna. Í fyrstu átta leikjunum kom hann inn á sem varamaður en hann fékk tækifæri í byrjunarliðinu í dag.
Andri var tekinn af velli í hálfleik í leiknum á Stadio Renato Dall'Ara í dag. Þá var staðan markalaus.
Í seinni hálfleik tókst Bologna svo að brjóta Reggina á bak aftur og skora tvö mörk. Þau gerðu Emanuel Vignato og Riccardo Orsolini.
Bologna mætir annað hvort Spezia eða Cittadella í 4. umferð ítölsku bikarkeppninnar eftir mánuð eða svo.