Sport

Tveir fyrstu íslensku leikirnir á laugardaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Embla Kristínardóttir mætir uppeldisfélaginu sínu Keflavík í fyrsta sinn sem leikmaður Skallagríms. Hér er hún í leik með Skallagrími á móti Haukum á dögunum.
Embla Kristínardóttir mætir uppeldisfélaginu sínu Keflavík í fyrsta sinn sem leikmaður Skallagríms. Hér er hún í leik með Skallagrími á móti Haukum á dögunum. Vísir/Vilhelm

Tveir leikir fara fram á Íslandi á laugardaginn kemur en það verða fyrstu meistaraflokksleikirnir hér á landi síðan að íslenska íþróttalífið var fryst í byrjun október í baráttunni við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Leikirnir sem fara fram á laugardaginn eru einn fótboltaleikur og einn körfuboltaleikur en í báðum tilfellum eru landsbyggðarlið að mætast. Landsbyggðarlið hafa geta æft í hléinu ólíkt liðum af höfuðborgarsvæðinu.

Knattspyrnusamband Íslands og Körfuknattleikssamband Íslands hafa staðfest báða leikina á heimasíðum sínum.

Klukkan 14.00 á laugardaginn mætast Keflavík og Grindavík á Nettóvellinum í Keflavík. Þetta er frestaður leikur úr fimmtándu umferð og eini leikurinn úr þeirri umferð sem átti eftir að spila.

Stöð 2 Sport mun sýna leik Keflavíkur og Grindavíkur beint en Keflvíkingar eru í baráttu við Leikni R. og Fram um sæti í Pepsi Max deild karla á næstu leiktíð.

Klukkan 16.15 á laugardaginn taka síðan bikarmeistarar Skallagríms á móti Keflavík í Domino´s deild kvenna í körfubolta en leikurinn fer fram í Borgarnesi.

Þetta er leikur sem þurfti að fresta í annarri umferð eftir að Keflavíkurkonur þurftu að fara í sóttkví vegna kórónuveirusmits innan liðsins.

Leikur Skallagríms og Keflavíkur verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Keflavíkurkonur eiga einnig leik inni á móti Snæfelli vegna fyrrnefndar sóttkvíar og hann verður væntanlega spilaður í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×