Erlent

Tyrkir í hart vegna skopmyndar af Erdogan

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þeir Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, eru litlir vinir þessa dagana.
Þeir Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, eru litlir vinir þessa dagana. AP/Michael Sohn

Tyrklandsstjórn ætlar að grípa til bæði lagalegra og diplómatískra aðgerða vegna nýrrar skopmyndar franska blaðsins Charlie Hebdo af Recep Tayyip Erdogan forseta. Á myndinni, sem sjá má hér að neðan, sést forsetinn lyfta kjól konu.

 

Tyrkneskir saksóknarar hafa nú þegar sett af stað rannsókn á málinu en ríkin tvö hafa átt í miklum illdeilum undanfarna daga. 

Mikið ósætti er á meðal múslimaríkja með aðgerðir Frakklandsstjórnar í kjölfar þess að öfgamaður myrti Samuel Paty, kennara í París, fyrir að hafa sýnt nemendum sínum skopmyndir af Múhameð spámanni. 

Macron forseti hefur neitað að fordæma myndirnar. Þá hefur stjórn hans meðal annars boðað eftirlit með moskum, heitið því að standa vörð um franska veraldarhyggju og boðað frekari aðgerðir gegn þeim litla hluta franskra múslima sem yfirvöld telja að reyni nú að grafa undan frönskum stjórnvöldum.

Þessar aðgerðir hafa vakið hörð viðbrögð í fjölda múslimaríkja og hafa fjölmenn mótmæli, meðal annars í Pakistan, farið fram. 

Erdogan hvatti landa sína fyrr í vikunn itil þess að sniðganga franskar vörur, líkt og hefur gerst í öðrum múslimaríkjum. Forsetinn sagði í sjónvarpsávarpi að Frakklandsstjórn kúgaði múslima og kallaði evrópska leiðtoga fasista.


Tengdar fréttir

Múslimar víða reiðir Macron

Yfirvöld í Frakklandi hafa kallað sendiherra sinn í Tyrklandi heim vegna ummæla Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, sagði Emmanuel Macron, forseta Frakklands, vera veikan á geði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×