Erlent

Þrír látnir eftir árás við kirkju í Nice

Atli Ísleifsson skrifar
Frá vettvangi í morgun.
Frá vettvangi í morgun. EPA

Að minnsta kosti þrír eru látnir og nokkrir eru særðir eftir árás við Notre Dame kirkjuna í miðborg frönsku borgarinnar Nice í morgun. Árásarmaðurinn er sagður vera í haldi lögreglu.

Reuters segir frá því að í hópi fórnarlamba sé kona sem hafi verið afhöfðuð af árásarmanninum.

Borgarstjóri Nice, Christian Estros, segir allt benda til að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða og hefur innanríkisráðherra landsins, Gérald Darmanin, verið kallaður til neyðarfundar.

Notre Dame kirkjan í Nice.Wikipedia/CC

Lögregla í borginni hefur staðfest að hún hafi verið kölluð út vegna hnífstuguárásar í við Notre Dame, en það eru sjónvarpsstöðin BFMTV segir að þrír séu látnir og að nokkrir hafi særst í árásinni. Þá sé meintur árásarmaður sagður vera særður og í haldi lögreglu.

Franskir fjölmiðlar segja að búið sé að girða af svæði í miðborginni og að verið sé að rannsaka grunsamlega tösku. Bæði lögregla og hermenn eru á staðnum.

Nice Matin segir frá því að árásin hafi átt sér stað inni í sjálfri kirkjunni, um klukkan 9 að staðartíma. Þá segir að árásarmaðurinn hafi hrópað „allahu akbar“, Guð er mikill.

Tæpar tvær vikur eru nú síðan fréttir bárust af því að átján ára piltur hafi afhöfðað kennarann Samuel Paty í úthverfi Parísar, að því er virðist vegna þess að kennarinn hafði sýnt nemendum sínum skopmyndir af Múhammeð spámanni. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×