Fótbolti

Í­þrótta­stjórinn í frí á miðju tíma­bili eftir deilur við þjálfarann

Anton Ingi Leifsson skrifar
Christian Nielsen í leik gegn Midtjylland fyrr á þessari leiktíð.
Christian Nielsen í leik gegn Midtjylland fyrr á þessari leiktíð. Jan Christensen / FrontzoneSport

Það hefur ekki gengið sem skildi hjá Lyngby inni á vellinum í dönsku úrvalsdeildinni það sem af leiktíðinni og það virðist einnig hafa verið vandræði utan vallar.

Bæði Ekstra Bladet og BT fjölluðu um málið fyrir helgi en þar sögðu miðlarnir frá því að íþróttastjórinn Birger Jørgensen væri farinn í frí næstu vikurnar.

Í frétt Ekstra Bladet segir frá því að Birger hafi verið sendur í frí eftir að hann og þjálfari liðsins, Christian Nielsen, hafi verið ósammála um fleiri hluti.

Formaður Lyngby gaf þó lítið fyrir það en bæði Ekstra Bladet og BT hafa þetta eftir sínum heimildum að Birger og Christian hafi verið ósammála um marga hluti; hvernig ætti að vinna hlutina innan Lyngby.

Yfirlýsing Lyngby, sem kom síðar í vikunni, segir hins vegar frá því að Birger hafi sjálfur beðið um fríið og þar af leiðandi verður hann ekki á skrifstofunni í Lyngby næstu þrjár vikurnar.

Fríið hefur vakið mikla undrun í Danmörku því Lyngby hefur farið skelfilega af stað í ár. Liðið er á botni deildarinnar með tvö stig eftir fyrstu sjö leikina og er fimm stigum frá Randers í 10. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×