Erlent

Uppáhalds hundur einræðisherrans fær gyllta styttu

Samúel Karl Ólason skrifar
Gurbanguly Berdymukhamedov gaf Vladimír Pútín, forseta Rússlands, þennan hund á fundi þeirra árið 2017.
Gurbanguly Berdymukhamedov gaf Vladimír Pútín, forseta Rússlands, þennan hund á fundi þeirra árið 2017. EPA/MAXIM SHEMETOV

Gurbanguly Berdymukhamedov, hinn umdeildi einræðisherra Túrkmenistans, opinberaði í gær stærðarinnar gyllta styttu af uppáhalds hundategund sinni. Styttan var reist í nýju hverfi í Ashgabat, höfuðborg landsins, og komið fyrir á stóru hringtorgi í hverfinu. Styttan stendur á palli sem þakinn er skjám sem sýna myndefni af hundategundinni.

Um er að ræða svokallaða Alabai hunda en Berdymukhamedov er mikill aðdáandi þeirra og hefur hann meðal annars skrifað bók um tegundina og jafnvel ljóð sem varð svo að lagi.

Í frétt ríkismiðils Túrkmenistan segir að tilgangur styttunnar og minnisvarðans í heild sé að votta „þessum dásamlegu dýrum“ virðingu. Styttan sjálf er sex metra há og er sögð standa á níu metra háum palli, samkvæmt áðurnefndri frétt. Þar segir þó einnig að minnisvarðinn sé ellefu metra hár og á 36 metra palli.

Hér að neðan má sjá myndefni úr frétt Ríkissjónvarps Túrkmenistan í gær sem fjallaði um opnun hverfisins og þar á meðal um styttuna umræddu.

Samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar frá því í fyrra hefur Berdymukhamedov lengi hyllt Alabai hundana og notað þá í viðleitni hans til að byggja þjóðarstolt. Hann hefur gefið öðrum þjóðarleiðtogum hvolpa og þeirra á meðal er Valdimír Pútín, forseti Rússlands.

Sjá einnig: Frægasta hláturskast Íslandssögunnar

Berdymukhamedov hefur einnig skrifað ljóð og bók um hesta Túrkmenistan en ást hans á hestum hefur verið vel skrásett í gegnum tíðina og þá sérstaklega af grínistanum John Oliver í þætti hans Last Week Tonight í fyrra.

Hann hefur þar að auki gefið út lag með barnabarni sínu sem fjallar um hesta Túrkmenistan.

Hér er svo enn meira myndefni af Berdymukhamedov með hundum. Þar má meðal annars sjá einræðisherrann gefa hermönnum Alabai hvolpa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×