Fótbolti

Bílflautukonsert á götum Skopje eftir að Norður-Makedónía komst í fyrsta sinn á stórmót

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Norður-Makedóníumenn fagna sætinu á EM.
Norður-Makedóníumenn fagna sætinu á EM. getty/Levan Verdzeuli

Þjóðhátíðarstemmning var á götum Skopje í gærkvöldi eftir að Norður-Makedónía tryggði sér sæti á EM á næsta ári eftir 0-1 sigur á Georgíu. Þetta er í fyrsta sinn sem Norður-Makedóníumenn komast á stórmót í fótbolta.

Þar sem samkomutakmarkanir í Norður-Makedóníu miðast við fjóra létu margir sér nægja að setjast undir stýri, veifa norður-makedónska fánanum út um bílrúðuna og flauta duglega eins og sjá má hér fyrir neðan.

Klippa: Fögnuður á götum Skopje

Skipulögð en jafnframt mjög hófleg sigurhátíð á að fara fram í dag. Fólk þarf að vera með grímu og passa sig á að halda fjarlægð frá hvert öðru.

Heilbrigðisráðherra Norður-Makedóníu, Venko Filipce, óskaði landsliðinu til hamingju en hvatti landsmenn til að fagna innan sóttvarnareglna. 

„Frábærlega gert strákar! Til hamingju með að hafa skrifað söguna!“ skrifaði Filipce á Facebook. „Frábær dagur fyrir verðskulduð fagnaðarlæti en ég bið ykkur um að virða sóttvarnareglur. Spenningurinn er mikill en þetta er bara byrjunin á sigrum landsliðsins okkar.“

Gamla brýnið og fyrirliðinn Goran Pandev skoraði markið sem tryggði Norður-Makedóníu farseðilinn á fyrsta stórmótið. Hann hefur verið lengi að, lék sinn fyrsta landsleik 2001 og er leikja- og markahæstur í sögu norður-makedónska landsliðsins.

Pandev, sem er 37 ára, er langfrægasti fótboltamaður Norður-Makedóníu. Hann hefur nánast sinn feril á Ítalíu og varð m.a. þrefaldur meistari með Inter 2010 og varð einnig bikarmeistari með Lazio og Napoli. Pandev leikur núna með Genoa og hefur gert síðan 2015.

Norður-Makedónía verður í riðli með Austurríki, Úkraínu og Hollandi á EM á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×