Þúsundir stuðningsmanna Donald Trump Bandaríkjaforseta söfnuðust saman í höfuðborginni Washington í gær til þess að lýsa yfir stuðningi við hann og ásakanir hans um meint kosningasvindl. Um tuttugu voru handtekin í mótmælum stuðningsmannanna.
Trump hefur sjálfur ekki viðurkennt ósigur í kosningunum, en Joe Biden var lýstur sigurvegari fyrir rúmri viku síðan. Biden hlaut 306 kjörmenn og er því langt yfir þeim fjölda kjörmanna sem þarf til að sigra, en 270 kjörmenn tryggja sigur í kosningunum.
Mótmælendurnir söfnuðust saman um hádegisbil nærri Hvíta húsinu og héldu í átt að húsnæði Hæstaréttar landsins í borginni. Nokkrir öfgahægri hópar tóku þátt og lýstu yfir stuðningi við forsetann, þar á meðal hópurinn Proud boys, sem hefur verið skilgreindur sem öfgasamtök.
Mótmælendur voru margir hverjir með fána sem skreyttir voru með stuðningsorðum til forsetans og sumir klæddir skotheldum vestum.
Mótmælin voru að mestu friðsæl í upphafi, en þegar tók að líða á kvöldið fór að bera á látum og ryskingum í hópi mótmælendanna.
Í það minnsta tuttugu voru handtekin á mótmælunum, meðal annars fyrir vopnaburð og líkamsárásir, og slösuðust tveir lögreglumenn við störf á vettvangi. Þá var ein stunguárás tilkynnt til lögreglu samkvæmt breska ríkisútvarpinu.