Hannes Þór Halldórsson sagðist ekki viss hvort hann hefði leikið sinn síðasta landsleik þegar Ísland tapaði 4-0 fyrir Englandi á Wembley í kvöld. Hannes kom inn á sem varamaður fyrir Ögmund Kristinsson í hálfleik og jafnaði þar með leikjamet Birkis Kristinssonar. Þeir eru leikjahæstu markverðir í sögu landsliðsins með 74 landsleiki hvor.
„Ég veit það ekki. Það verður að koma í ljós. Ef það fer svo var þetta góður tímapunktur hér á Wembley og að jafna vin minn, Birki Kristinsson, í leikjafjölda,“ sagði Hannes við Henry Birgi Gunnarsson eftir leik. Markvörðurinn segir að framhaldið hjá sér með landsliðinu sé óljóst.
„Framhaldið verður að koma í ljós. Það er mikið af tilfinningum í þessu og við enn að jafna okkur á þessu hörmulega tapi og sleikja sárin. Núna eru nokkrir mánuðir í næsta verkefni. Ég var bara að horfa á að spila á EM en núna er þetta ný staða.“
Hannes segir að tapið sára fyrir Ungverjalandi í síðustu viku hafi setið í íslenska liðinu og dagarnir í framhaldinu hafi tekið á.
„Já, það má alveg segja það. Ungverjaleikurinn tók mikið á okkur og það tók mikið á að rífa okkur í gang. Svo ég tali fyrir mig þá er svolítið eins og maður hafi tekið þetta á hnefanum eftir hann og tilfinningarnir eru að koma út núna,“ sagði Hannes sem var mjög tilfinningaríkur í viðtalinu og beygði nánast af áður en því lauk.