Lyfjarisinn Pfizer og samstarfsfyrirtækið BioNTech munu sækja um svokallað neyðarmarkaðsleyfi í Bandaríkjunum í dag fyrir bóluefnið BNT162b2 gegn SARS-CoV-2. Það verður undir bandaríska lyfjaeftirlitinu (FDA) komið að ákveða hvort bóluefnið þykir nægjanleg öruggt til dreifingar meðal almennings.
Það liggur ekki fyrir hversu langan tíma FDA mun taka sér til að meta bólefnið en bandarísk stjórnvöld gera ráð fyrir að leyfið verði í höfn fyrir miðjan desember. Umfangsmiklar rannsóknir hafa sýnt að bóluefnið virkar í 94% tilvika hjá 65 ára og eldri. Um 40 þúsund manns tóku þátt í tilraunum fyrirtækjanna en helmingur fékk bóluefnið og helmingur lyfleysu.
Talsmenn Pfizer og BioNTech hafa sagst geta hafið dreifingu um leið og leyfið fæst. Þess má geta að venjulega tekur það um átta ár að fá bóluefni samþykkt í Bandaríkjunum og jafnvel lengri tíma að þróa það. Í Bandaríkjunum verður á forræði smitsjúkdómastofnuarinnar (CDC) að ákveða hverjir verða í forgangi þegar kemur að dreifingu.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur undirritað samning við Pfizer um kaup á 200 milljónum skammta af BNT162b2, með möguleika á 100 milljón skammta til viðbótar. Ísland hefur sama aðgang að bóluefnum og aðildarríki ESB og hefur þegar verið tryggður aðgangur að bóluefnum AstraZeneca, Sanofi-GSK og Janssen Pharmaceutica NV.