Jón Þór stillir upp nákvæmlega sama byrjunarliði og í leiknum gegn Slóvakíu á fimmtudaginn sem Ísland vann með þremur mörkum gegn einu.
Ísland leikur 4-4-2 í dag líkt og gegn Slóvakíu. Sandra Sigurðardóttir er á sínum stað í markinu, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Hallbera Gísladóttir eru bakverðir og Glódís Perla Viggósdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir miðverðir.
Sara Björk Gunnarsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir eru á miðjunni, Sveindís Jane Jónsdóttir og Agla María Albertsdóttir á köntunum og Elín Metta Jensen og Berglind Björg Þorvaldsdóttir í fremstu víglínu.
Leikurinn gegn Ungverjum er síðasti leikur Íslendinga í undankeppninni. Með sigri fer Ísland langt með að tryggja sér sæti á fjórða Evrópumótinu í röð.
Ísland vann fyrri leikinn gegn Ungverjalandi á síðasta ári með fjórum mörkum gegn einu. Elín Metta Jensen skoraði tvö mörk fyrir íslenska liðið og þær Hlín Eiríksdóttir og Dagný Brynjarsdóttir sitt markið hvor.
Leikur Ungverjalands og Íslands hefst klukkan 14:30 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.