Erlent

Bíl ekið á gangandi vegfarendur í Trier

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan og aðrir eru með mikinn viðbúnað vegna málsins.
Lögreglan og aðrir eru með mikinn viðbúnað vegna málsins. AP/Harald Tittel

Minnst tveir eru látnir og eru minnst tíu sagðir hafa særst og þar af einhverjir alvarlega þegar bíl var ekið á gangandi vegfarendur í Trier í Þýskalandi í dag.

Uppfært 16:45

Þýskir fjölmiðlar segja nú að fjórir séu dánir en það hefur ekki verið staðfest af lögreglu.

Ung stúlka er sögð vera meðal hinna látnu en þýskur maður sem ku vera 51 árs gamall er sagður hafa ekið bíl sínum eftir vinsælli verslunar-göngugötu í borginni. Hann var handtekinn eftir að lögregulþjónar stöðvuðu hann með því að keyra á bíl hans og þvinga hann utanvegar.

Ekki er hægt að segja til um af hverju maðurinn ók á fólkið að svo stöddu, samkvæmt lögreglu.

Lögreglan segir einnig að hættan sé yfirstaðin en hefur beðið íbúa um að halda sig frá svæðinu.

Bild hefur eftir borgarstjóra Trier að ástandið á götunni hafi verið hræðilegt. Nefndi hann sérstaklega að hann hefði séð strigaskó á götunni og að stúlkan sem hafi verið í honum sé dáin.

Sjónarvottar sögðu þýskum fjölmiðlum að maðurinn hafi keyrt hratt eftir götunni og ekið vísvitandi á fólk.

Angela Merkel, kannslari Þýskalands, sendi fórnarlömbum árásarinnar kveðju í dag og samúðarkveðjur til aðstandenda þeirra sem dóu.

Hér má sjá myndband sem talið er sýna handtöku ökumannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×