Innlent

Sex milljóna króna akstursstyrkjum sagt upp hjá Rangárþingi ytra og Ásahreppi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Akstursstyrkir verða felldir niður hjá nokkrum starfsmönnum á Hellu og á Laugalandi í Holtum, sem starfa í skólum, sem byggðasamlagið Oddi rekur.
Akstursstyrkir verða felldir niður hjá nokkrum starfsmönnum á Hellu og á Laugalandi í Holtum, sem starfa í skólum, sem byggðasamlagið Oddi rekur. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Byggðasamlagið Oddi, sem rekur grunn- og leikskóla í Rangárþingi ytra, þ.e. á Hellu og á Laugalandi í Holtum hefur sagt upp akstursstyrkjum nokkurra starfsmanna og ætlar sér að spara þannig sex milljónir króna. Um er að ræða tímabundna styrki sem tóku gildi 1 ágúst 2019 og áttu að falla út í lok júlí á næsta ári en falla út fyrr.

„Akstursstyrkirnir er hluti af margvíslegum aðgerðum sem gripið er til vegna fyrirsjáanlegs tekjusamdráttar sveitarfélagsins á næsta ári,“ segir Ágúst Sigurðsson, formaður Odda og sveitarstjóri Rangárþings ytra en Ásahreppur er líka í byggðasamlaginu.

Ágúst Sigurðsson, formaður stjórnar Odda og sveitarstjóri Rangárþings ytra.Aðsend

Samkvæmt upplýsingum frá Ágústi eru í leikskólanum á Laugalandi 16 af 17 starfsmönnum sem fá greidda akstursstyrki í dag. Þegar styrkirnir falla út þá munu 10 ófaglærðir starfsmenn áfram fá greidda samningsbundna akstursstyrki en tímabundnir akstursstyrkir hjá 6 faglærðum starfsmönnum falla út. Í Laugalandsskóla eru 8 starfsmenn, sem fá samningsbundna akstursstyrki og á því verður ekki breyting. Í leikskólanum Heklukoti á Hellu eru 7 starfsmenn af 43 sem fá tímabundna akstursstyrki í dag en allir þeir styrkir munu falla út.

En er bara verið að segja upp akstursstyrkjum hjá þessu starfsfólki eða hjá fleiri starfsmönnum sveitarfélagsins?

„Þetta eru einu akstursstyrkirnir, sem hafa verið greiddir fyrir utan fyrrgreinda samningsbundna akstursstyrki til ófaglærðra við leikskólann og grunnskólann á Laugalandi en gert er ráð fyrir að þeir styrkir haldi sér, alls um 4,6 milljónir króna á næsta ári,“ segir Ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×