Erlent

Níu mánaða barn meðal látnu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Yfirvöld segja enn ekki liggja fyrir hvort um var að ræða viljaverk.
Yfirvöld segja enn ekki liggja fyrir hvort um var að ræða viljaverk. epa/Julien Warnand

Fjórir eru látnir eftir að maður ók bifreið inn á göngugötu í borginni Trier í Þýskalandi í dag. Meðal látnu er níu mánaða gamalt barn. Lögregla hefur handtekið 51 árs gamlan mann en hann er sagður hafa verið undir áhrifum áfengis.

BBC hefur eftir lögregluyfirvöldum að ekki sé talið að pólitískar eða trúarlegar hvatir hafi legið að baki gjörningum. Borgarstjóri Trier segir aðkomuna hafa verið hryllilega.

Látnu voru tvær konur, 25 ára og 73 ára, 45 ára maður og ungabarnið.

Samkvæmt sjónarvottum heyrðust öskur þegar stór fólksbifreið ók á miklum hraða inn í hóp af fólki nærri hliðinu Porta Nigra. Atvikið átti sér stað um kl. 12.45. Ökumaðurinn ók um kílómetra á göngugötunni áður en hann var stöðvaður af lögreglu.

Sjónarvottar heyrðu öskur og sáu fólk hendast upp í loft þegar bifreiðin ók á það.epa/Julien Warnand

Handtekni hefur verið yfirheyrður af lögreglu en að sögn yfirvalda eru vísbendingar um að hann eigi við geðræn vandamál að stríða. Hann er með hreint sakavottorð en ekkert fast heimilisfang.

Svo virðist sem hann hafi búið í bifreiðinni, sem hann hafði fengið lánaða.

Borgarstjórinn Wolfram Leibe sagði fyrr í dag að allt að 15 hefðu slasast, sumir alvarlega. Angela Merkel kanslari hefur sent aðstandendum fórnarlambanna samúðarkveðjur og óskað slösuðu bata.

Íbúar Trier telja um 110 þúsund. Í desember stendur venjulega yfir jólamarkaður á svæðinu þar sem harmleikurinn átti sér stað en honum var aflýst vegna Covid-19.


Tengdar fréttir

Bíl ekið á gangandi vegfarendur í Trier

Minnst tveir eru látnir og eru minnst tíu sagðir hafa særst og þar af einhverjir alvarlega þegar bíl var ekið á gangandi vegfarendur í Trier í Þýskalandi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×