Í frétt Stöðvar 2 mátti sjá Ölduna ÍS-47 sigla inn til hafnar á Flateyri, þó ekki með fisk heldur með nemendahóp Lýðskólans á Flateyri, að koma úr lifandi kennslustund um hafið hjá skipstjóranum.
„Já, ég er allt í einu orðinn hluti af kennslunni og gaman að taka þátt í því. Það er alveg bara frábært. Þetta gefur mikið líf hérna í þorpið,“ segir Gísli Jón Kristjánsson skipstjóri.

En hvernig hentar Flateyri fyrir skóla sem þennan?
„Mjög vel. Flateyri er fullkominn staður fyrir lýðskóla,“ svarar Ingibjörg Guðmundsdóttir skólastjóri.
Nemendur eru flestir Íslendingar. Tvær námsbrautir eru kenndar á íslensku; útivistarbraut sem kallast Hafið, fjöllin og þú, og hugmyndabraut sem kallast Hugmyndir, heimurinn og þú. Stefnt er á þriðju brautina, sem yrði alþjóðleg.
„Sem yrði þá kennd á ensku. Vinnuheitið er „Living in the Arctic“ þar sem við ætlum aðeins að færa út kvíarnar og fara svolítið að skoða og nýta okkur þetta „arctic“ umhverfi sem við í rauninni búum við,“ segir skólastjórinn.
Með skólanum bætast um þrjátíu ungmenni á aldrinum 18 til 35 ára inn í samfélagið yfir veturinn og Flateyringar fagna.

„Þessi skóli er búinn að lífga þvílíkt upp á þennan bæ. Gaman líka að sjá hvað nemendur eru að setjast hér að eftir skólann,“ segir Önfirðingurinn Kristín Pétursdóttir frá Ingjaldssandi, kennari við Lýðskólann.
„Við erum komin með einhverja níu nemendur sem eru orðnir Flateyringar eftir fyrstu tvö árin. Þannig að við sjáum bara hvað gerist eftir þetta skólaár,“ segir Ingibjörg skólastjóri.
Nánar er fjallað um skólann og mannlíf á Flateyri í þættinum Um land allt.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2.