Flugmálayfirvöld í Brasilíu og Bandaríkjunum hafa veitt heimild til notkunar flugvélanna eftir umfangsmikla yfirferð.
Fyrsta Boeing 737 Max vélin til að taka á loft á ný í áætlunarflugi fór frá São Paulo í Brasilíu og til borgarinnar Porto Alegre í dag, að því er fram kemur í frétt BBC. AFP segir frá því að vélin hafi lent heilu og höldnu.
#BREAKING Boeing 737 MAX lands safely in Brazil after first commercial flight since crashes pic.twitter.com/C6YUojxXr9
— AFP News Agency (@AFP) December 9, 2020
Gol hafði áður tilkynnt að 140 flugmenn félagsins hafi gengist undir þjálfun á hinum uppfærðu Max-vélum. Gol er stærsta flugfélagið til að sinna innanlandsflugi í Brasilíu og er með sjö Max-vélar í sínum flota. Stendur til að nota vélarnar á 27 flugleiðum í Brasilíu.
Talið er að Flugöryggisstofnun Evrópu muni aflétta banni á notkun Max-vélanna í Evrópu í janúar.
Icelandair tilkynnti um kaup á sextán MAX-vélum árið 2013, en eftir að samið var við Boeing eftir kyrrsetningu mun Icelandair nú eignast samtals tólf slíkar vélar í stað sextán. Einhverjar þeirra höfðu þegar verið teknar í notkun þegar ákveðið var um kyrrsetningu.