Enski boltinn

Segir að Bale geti orðið Ferrari Tottenham-liðsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aukaspyrna Gareths Bale skapaði fyrra mark Tottenham gegn Antwerpen.
Aukaspyrna Gareths Bale skapaði fyrra mark Tottenham gegn Antwerpen. getty/Tottenham Hotspur FC

Gareth Bale getur verið eins konar Ferrari Tottenham-liðsins. Þetta segir Owen Hargreaves, fyrrverandi landsliðsmaður Englands.

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, hefur notað Bale sparlega síðan hann kom til liðsins frá Real Madrid.

Bale átti þátt í fyrra marki Spurs gegn Antwerpen í Evrópudeildinni í gær en var í kjölfarið tekinn af velli. Tottenham vann leikinn, 2-0, og tryggði sér þar með efsta sætið í J-riðli.

„Ef ég væri Gareth Bale væri ég ósáttur með að hafa verið tekinn út af. Ég er viss um að sjálfstraustið jókst eftir að hann tók aukaspyrnuna sem leiddi til marksins. Ég geri ráð fyrir að Mourinho hafi horft á fyrstu tíu mínúturnar í seinni hálfleik, fundist hann hafa séð nóg og aukaspyrnan hafi ekki breytt skoðun hans,“ sagði Jermaine Jenas, fyrrverandi leikmaður Tottenham, eftir leikinn í gær.

Annar fyrrverandi leikmaður Tottenham, Glenn Hoddle, var ekkert sérstaklega hrifinn af frammistöðu Bales í leiknum í gær.

„Ég hefði búist við að hann væri kominn lengra núna en hann virðist vera viðkvæmur og hikandi. Hann virðist enn vera óviss með líkama sinn og hefur ekki þessa hraðabreytingu. Hann er að nálgast hana en það er stór spurning hvort hann nær henni aftur,“ sagði Hoddle.

Hargreaves var öllu jákvæðari í garð Bales en Jenas og Hoddle og segir að Walesverjinn geti skipt sköpum fyrir Tottenham.

„Hann er enn að finna fjölina sína en hann sýnir samt hvað hann getur fært liðinu á einu augnabliki. Hann þarf að fá boltann oftar og ég held að það henti honum ekki að spila úti á kanti núna,“ sagði Hargreaves.

„Faðir tími er ósigraður. Hann er kannski ekki eins kraftmikill og Formúlu 1 bíll en hann getur samt verið Ferrari eða eitthvað slíkt fyrir Tottenham.“


Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×