Erlent

Banna flug frá Bret­landi vegna nýja af­brigðisins

Sylvía Hall skrifar
Nokkrum flugum hefur þegar verið aflýst.
Nokkrum flugum hefur þegar verið aflýst. Getty/Chris Ratcliffe

Nokkur Evrópulönd hafa gripið til þeirra ráða að banna samgöngur frá Bretlandi og hefur flugi til að mynda verið aflýst. Er þetta gert vegna þess nýja afbrigðis kórónuveirunnar sem hefur fundist í Bretlandi og er talið vera sjötíu prósent meira smitandi en önnur afbrigði.

Belgía og Holland hafa aflýst flugi frá Bretlandi og þá er lestum frá Bretlandi bannað að koma til Belgíu. Samkvæmt breska ríkisútvarpinu íhuga Frakkland og Þýskaland að grípa til sambærilegra aðgerða sem og Ítalía.

Afbrigðið sem um ræðir er líkt og áður sagði talið vera mun meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar og hefur það dreifst hratt um Lundúnaborg og suðausturhluta Bretlands. 

Hefur verið ákveðið að grípa til hertari aðgerða á þeim svæðum yfir hátíðirnar og tóku þær gildi á miðnætti.

Samkvæmt fyrstu greiningum á afbrigðinu bendir ekkert til þess að bóluefni virki ekki á afbrigðið.

Ekki verður tekið á móti flugvélum frá Bretlandi í Hollandi frá og með deginum í dag fram til 1. janúar næstkomandi. Ríkisstjórn landsins sagðist vilja lágmarka hættuna á því að nýr faraldur kæmist á skrið í landinu og stefndi að því að eiga náið samstarf með aðildarríkjum Evrópusambandsins næstu daga.

Sömu reglur taka gildi í Belgíu á miðnætti og eiga þær bæði við um flug og lestarferðir. Forsætisráðherrann Alexander De Croo sagði í samtali við belgíska fjölmiðla að bannið yrði í gildi í að minnsta kosti sólarhring.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×