Skoðun

Nemar eru mikilvægt tannhjól

Tómas Guðbjartsson skrifar

Í viðtali við Heimi & Gulla í Bítinu í morgun var ég spurður út í klíníska kennslu læknanema á 4-6 ári á Landspítala á tímum Covid-19 faraldurs. Um leið fékk ég tækifæri til að segja mína skoðun á þessu mikilvæga máli sem hefur verið töluvert til umræðu innan spítalans sl. vikur.

Í fyrsta lagi eru margir læknanemar, en líka hjúkrunarnemar, að taka aukavaktir á kvöldin og um helgar á ýmsum deildum spítalans, m.a. á skurðdeildinni. Þar eru þeir mikilvægur starfskraftur á stofnun sem hefur verið undirmönnuð löngu áður en Covid-19 faraldurinn skall á. Það væru skrítin skilaboð að banna þessum sömu nemum að mæta á dagvinnutíma á spitalann - en vilja síðan nýta krafta þeirra á kvöldin og um nætur.

Enn veigameiri rök eru að lækna- og hjúkrunarnemar gætu nýst síðar í faraldrinum við umönnun og meðferð sjúkra - t.d. ef margir af föstum starfsmönnum spítalans veikjast eða eru settir í sóttkví.

Á Ítalíu, þar sem ástandið er hvað verst, hefur verið ákveðið að útskrifa læknanema 9 mánuðum fyrir tímann og án hefðbundinni prófa, svo þeir geti nýst í Covid-19 holskeflunni. Á Landspítala létta nemar þegar undir á deildum og geta aðstoðað í aðgerðum. Loks má nefna að það ástand sem nú ríkir er mikilvægt kennslutækfæri - en þau rök vega ekkert á við þau sem ég rakti hér á undan.

Vitanlega verða allir nemar að fylgja ströngustu sóttvörnum og kennsla þeirra hefur þegar verið endurskipulögð. Þannig eru kennslustofugangar, eins og sýndur er myndinni, aflagðir og fyrirlestrar fara fram í gegnum fjarfundabúnað. Við reynum öll að gera okkar það besta og reyndar frábært að skynja áhuga lækna- og hjúkrunarnema á því að bjóðat til að taka þátt í þessari áskorun.

Við þurfum nefnilega á allri þekkingu og kröftum að halda nú á þessum fordæmalausu tímum - og styðja þannig við sjúklinga og viðkvæmt heilbrigðiskerfi.

Höfundur er hjartalæknir.




Skoðun

Sjá meira


×