Erlent

Minnst sautján særðir eftir öflugan jarðskjálfta í Zagreb

Eiður Þór Árnason skrifar
Skjálftinn olli miklum skemmdum víða um borgina.
Skjálftinn olli miklum skemmdum víða um borgina. AP/Darko Bandic

Öflugur jarðskjálfti að stærð 5,3 skók Zagreb, höfuðborg Króatíu, snemma í morgun og olli miklum skemmdum víðast hvar um borgina. Skjálftinn er sá stærsti sem riðið hefur yfir borgina í 140 ár að sögn Andrej Plenkovic, forsætisráðherra landsins.

Minnst sautján eru nú taldir særðir, þar af fimmtán ára unglingur sem er sagður vera í alvarlegu ástandi eftir að þak hrundi yfir hann. Fjöldi bygginga hefur orðið fyrir skemmdum vegna skjálftans og þekur brak úr þeim margar götur í miðbæ borgarinnar.

Jarðskjálftinn skók borgina á meðan útgöngubann var víða í gildi til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Fólk var því minnt á að forðast almenningssvæði, virða tveggja metra regluna og halda sig heima fyrir ef mögulegt var. 235 staðfest smit hafa nú greinst í landinu.

Fjöldi borgarbúa flykktist út á götur í nístandi frosti þegar það fann fyrir skjálftanum um klukkan sex í morgun að staðartíma og var spítali meðal annars rýmdur. Þar sást fjöldi kvenna í náttsloppum með nýborin börn sín, sum hver í hitakössum, á bílastæðinu fyrir utan. Þau voru í kjölfarið færð annað með hjálp hermanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×