Alþjóða ólympíunefndin, IOC, ætlar að gefa sér fjórar vikur til viðbótar til þess að ákveða hvort að Ólympíuleikunum í Tókýó, sem eiga að hefjast 24. júlí, verði frestað vegna kórónuveirufaraldursins.
Á fundi framkvæmdastjórnar IOC í dag var ákveðið að fresta ekki leikunum að svo stöddu. Samkvæmt Dan Roan, blaðamanni BBC, eru þrír möguleikar í stöðunni. Að leikarnir fari fram á þeim tíma sem áætlað var, en verði minni í sniðum, að þeim verði frestað um nokkra mánuði, eða að þeim verði frestað um eitt ár og fari fram sumarið 2021.
Íslenskt íþróttafólk er á meðal þeirra fjölmörgu sem gagnrýnt hafa að ekki sé búið að fresta leikunum, nú þegar til að mynda búið er að fresta flestum mótum sem gefa íþróttafólkinu tækifæri á að vinna sig inn á leikana. Og IOC er nú opinberlega búið að opna á þann möguleika að fresta leikunum, en forseti nefndarinnar Thomas Bach sagði við The New York Times að verið væri að skoða mismunandi sviðsmyndir. Í bréfi hans til íþróttafólks í dag segir:
„Við hófum ítarlegar umræður til að klára að meta þær öru breytingar sem verið hafa á stöðu heilbrigðismála í heiminum og áhrif þeirra á Ólympíuleikana, með möguleika á frestun. Við erum viss um að þessum umræðum verður lokið innan fjögurra vikna.“