Fótbolti

Marco Asensio óstövandi í FIFA leiknum um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marco Asensio hefur verið í borgaralegum klæðum á leikjum Real Madrid á þessu tímabili eftir að hafa meiðst illa í haust.
Marco Asensio hefur verið í borgaralegum klæðum á leikjum Real Madrid á þessu tímabili eftir að hafa meiðst illa í haust. Vísir/Getty

Marco Asensio hefur greinilega nýtt fjarveruna frá fótboltavellinum í að bæta sig í tölvuleikjum heima í stofu ef marka má frammistöðu hans í tölvuleikjamóti spænsku deildarinnar.

Marco Asensio, sem missti af tímabilinu með Real Madrid vegna meiðsla, bar sigur úr býtum í La Liga Santander Challenge mótinu sem fór fram um helgina en átján af tuttugu liðum deildarinnar sendu þá keppanda til leiks.

Keppt var í FIFA 20 tölvuleiknum og fór mótið fram með útsláttarfyrirkomulagi frá föstudegi til sunnudags.

Mótið var líka fjáröflun fyrir baráttuna við kórónuveiruna en það söfnuðu yfir 140 þúsund evrur eða meira en 21 milljón íslenskra króna.

Meira en 170 þúsund manns fylgdust með mótinu og sáu Asensio stýra Real Madrid til 4-1 sigurs á Aitor Ruibal hjá Leganes í úrslitaleiknum.

Barcelona og Real Mallorca máttu reyndar ekki taka þátt í mótinu af því að Konami er styrktaraðili þeirra en Konami framleiðir tölvuleikinn Pro Evolution Soccer sem er í beinni samkeppni við Fifa 20 leikinn.

Sjónvarpsmaðurinn Miguel Ángel Román, sem lýsir La Liga leikjum, lýsti leikjum á mótinu og leikirnir voru einnig sýndir í spænsku sjónvarpi. Marca og AS, tvö stærstu íþróttablöð Spánar, voru með leikina í beinni á sínum síðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×