Skoðun

Að senda fólki fingurinn

Flosi Eiríksson skrifar

Á þessum tímum skiptir afar miklu að koma upplýsingum til almennings með skýrum og greinargóðum hætti. Almannavarnir og aðrir opinberir aðilar leggja á þetta mikla áherslu og reyna til dæmis að hafa efni aðgengilegt á sem flestum tungumálum. Í þessu efni má benda á efni hjá ASÍ, Landlæknisembættinu, Vinnumálastofnun og fleirum, meira að segja bankarnir eru að reyna að sýna lit.

Flestum finnst þetta eðlilegt og sjálfsagt og hluti af því samfélagi sem við viljum reka hér á landi. Hér njótum við góðs af því að fólk kemur að utan til að hjálpa okkur við að halda uppi þjónustu og býr til verðmæti í samfélaginu.

Þá berast fréttir af bæjarstjórnarfundi í Kópavogi að þar hafi bæjarstjórinn brugðist afar illa við tillögum frá minnihluta bæjarstjórnar um að upplýsingamiðlun bæjarins næði til allra íbúanna og á fleiri tungumálum en íslensku – og hafi sagt að þeir sem ekki skilja íslensku gætu ,,bara notað google translate“. Skilningsleysið og fyrirlitningin sem fram kemur í þessu er náttúrulega með slíkum ósköpum að það tekur engu tali.

Það á kannski ekki að koma á óvart miðað við framgöngu og málflutningi í kjaradeilu sveitarfélagsins við Eflingu þar sem tungumál sveitarfélagsins er illskiljanlegt. Kópavogur ætti að taka Eflingu sér til fyrirmyndar en á heimasíðu félagsins eru upplýsingar fyrir félagsmenn um rétt til launa vegna Covid-19 á sex tungumálum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands




Skoðun

Sjá meira


×