Stjórn Samherja ákvað í dag að Þorsteinn Már Baldvinsson snúi aftur til starfa og verði forstjóri samstæðunar við hlið Björgólfs Jóhannssonar sem gegnir forstjórastarfi sínu áfram þar til annað verður ákveðið.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Samherja. Þorsteinn steig til hliðar sem forstjóri Samherja í nóvember 2019 í kjölfar umfjöllunar Kveiks og Stundarinnar um starfsemi félagsins í Namibíu.
Þar var Samherji sakaður um að hafa borið fé á namibíska embættismenn til að komast yfir kvóta þar í landi. Byggði umfjöllunin á umfangsmiklu magni gagna sem lekið var til Wikileaks af uppljóstraranum Jóhannesi Stefánssyni, áður verkefnastjóra Samherja í Namibíu, og frásögn hans.
Hugðist Þorsteinn stíga til hliðar á meðan rannsókn á vegum norsku lögmannsstofunar Wikborg Rein færi fram á starfsemi dótturfélaga Samherja þar í landi. Þeirri rannsókn, sem heyrir undir stjórn Samherja, er enn ólokið.
Sjá einnig: Samherjamálið skref fyrir skref
„Þorsteinn Már Baldvinsson fær það verkefni að leiða aðgerðir Samherja vegna þeirra fáheyrðu aðstæðna sem eru uppi vegna útbreiðslu Covid-19. Stjórn Samherja telur að sterk forysta með ítarlega þekkingu á mannauði, veiðum, vinnslu, sölu, flutningum og öllum öðrum rekstri samstæðunnar muni skipta sköpum í þeim aðgerðum sem ráðast þarf í. Þorsteinn Már hefur áður stýrt Samherja í gegnum íslenska bankahrunið og alþjóðlegu fjármálakreppuna með framúrskarandi árangri. Stjórn Samherja telur því að enginn sé betur í stakk búinn að takast á við núverandi aðstæður,“ er haft eftir Eiríki S. Jóhannssyni, stjórnarformanni Samherja, í tilkynningunni.
Fréttin hefur verið uppfærð.