Fótbolti

„Frábær náungi en aldrei virkað á mig sem maður með miklar pælingar um fótbolta“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Atli Sveinn tók við Fylki í vetur.
Atli Sveinn tók við Fylki í vetur. mynd/einar ásgeirsson/twitter-síða fylkis

Atli Sveinn Þórarinsson er nýráðinn þjálfari Fylkis en þetta er hans annað verkefni í meistaraflokksþjálfun. Hann þjálfaði Dalvík/Reyni í 3. deildinni sumarið 2018 en Hjörvar Hafliðason sparkspekingur veit ekki hvort að Atli sé með miklar pælingar um fótbolta þó að hann sé frábær náungi.

Fylkir var á meðal þeirra liða sem voru til umræðu í Sportinu í kvöld í vikunni en þar fóru þeir Guðmundur Benediktsson, Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari og Hjörvar Hafliðason sparkspekingur yfir sviðið.

Atli Sveinn tók við Fylki í vetur af Helga Sigurðssyni en hann stýrir liðinu ásamt þeim Ólafi Stígssyni og Ólafi Inga Skúlasyni.

„Ég þekki Atla Svein ekkert sérstaklega. Frábær náungi en hann hefur aldrei virkað á mig sem maður sem er með miklar pælingar um fótbolta. Veistu hvert ég er að fara?“ sagði Hjörvar um Atla Svein.

„Ég spilaði með Atla Sveini í nokkur ár í Val og ég get alveg sagt þér það. Algjört toppeintak. Hann er einn traustasti maður sem þú getur spilað með og sem persóna líka,“ sagði Guðmundur Benediktsson um Atla.

„Ég hef aldrei hugsað það þannig að hann hugsi eitthvað minna um fótbolta heldur en einhver annar. Ég yrði mjög hissa ef hann yrði ekki mjög farsæll þjálfari. Það er eitthvað við hann sem er svo traust. Ég held að hann fái alltaf leikmenn með sér.“

Klippa: Sportið í dag - Umræða um Atla Svein

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×