„Líklegast fyllist allt af Íslendingum. Ég tek undir með Áslaugu að tjaldsvæðin munu verða full og það mun væntanlega verða góður markaður fyrir tjaldvagna, fellihýsi og þessháttar,“ sagði Þórarinn Ævarsson veitingamaður um stöðu ferðaþjónustunnar í sumar.
Þórarinn, sem stendur nú í ströngu við undirbúning opnunar pizza-staðarins Spaðans á Dalvegi, ræddi fréttir vikunnar í Bítinu ásamt Áslaugu Huldu Jónsdóttur bæjarfulltrúa í Garðabæ.
„Ég er þeirrar skoðunar að þeir aðilar í ferðaþjónustunni, sem munu lifa, verða að setja sig í aðrar stellingar hvað varðar verðlagningu,“ sagði Þórarinn sem hefur löngum gagnrýnt verðlagningu hér á landi.
Þórarinn gerði orð Heimis Karlssonar, þáttastjórnanda Bítisins, að sínum og sagði almenning ekki munu sætta sig við það að borga „fimm þúsund kall fyrir bleikjubita á Mývatni.“ Frekar myndu íslenskir ferðamenn smyrja sitt eigið nesti, nema að menn bregðist við og lækki verð. Slíkt myndi hafa jákvæð áhrif á störf hótela og veitingastaða á landinu.
„Það kostar jafnmikið, launalega séð, að vera með hálftómt hótel og fullt hótel. Ég held að í þessu samhengi, taktu minna fyrir það og vertu með þetta flæði viðskiptavina sem skilar sér margfalt til baka. Ég þekki þetta mjög vel úr eigin rekstri,“ sagði Þórarinn.
Skilaboð Þórarins til ferðaþjónustunnar voru því einfaldlega á þá leið. „Verið með sanngjarna verðlagningu og fólk mun taka ykkur fagnandi,“ sagði Þórarinn.
Áslaug Hulda sagðist þá vona að aðilar í ferðaþjónustunni væru að hlusta. Fólk væri orðið óþreyjufullt og vera líklega að skipuleggja sumarfrí sitt um þessar mundir og væri reiðubúið að bóka gistingu.
Hlusta má á Áslaugu Huldu og Þórarinn í liðnum Fréttir vikunnar í Bítinu í spilaranum hér að neðan.