Enski boltinn

Engar launalækkanir hjá Chelsea

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Rússneski auðkýfingurinn Roman Abramovich er eigandi Chelsea.
Rússneski auðkýfingurinn Roman Abramovich er eigandi Chelsea. Mynd/AFP

Enska úrvalsdeildarliðið Chelsea hefur gefið út að hvorki leikmenn né starfsfólk félagsins muni taka á sig launalækkun eða launaskerðingu í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Áður hafði félagið gefið út að það myndi ekki nýta sér neyðarúrræði stjórnvalda.

Forráðamenn félagins hafa átt í viðræðum við leikmenn um að taka á sig 10 prósenta launalækkun en þær viðræður báru ekki árangur.

Í yfirlýsingu Chelsea segir að enginn muni lækka í launum en jafnframt segir að leikmenn aðalliðsins hafi verið hvattir til þess að gefa hluta af launum sínum í góð málefni.

Líkt og mörg önnur úrvalsdeildarfélög hefur Chelsea lagt lóð á vogarskálarnar í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn sem hefur leikið Lundúnarbúa grátt.

Hefur félagið til að mynda gefið máltíðir, bæði til starfsfólks heilbrigðisstofnana og góðgerðasamtaka. Þá hefur leikvangur félagsins, Stamford Bridge, verið nýttur til aðstoðar við heilbrigðisyfirvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×