Enski boltinn

Keane: Man Utd á langt í land með að ná City og Liverpool

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Roy Keane var afar sigursæll með Man Utd.
Roy Keane var afar sigursæll með Man Utd. vísir/getty

Manchester United goðsögnin Roy Keane telur félagið hafa tekið mörg góð skref á undanförnum mánuðum en engu að síður eigi liðið langt í land með að geta keppt við bestu lið Englands, Manchester City og Liverpool.

Man Utd var á góðu skriði þegar enska úrvalsdeildin var stöðvuð í kjölfar kórónuveirufaraldursins og hafa leikmenn á borð við Bruno Fernandes og Harry Maguire gefið stuðningsmönnum félagsins von um að félagið geti aftur farið að berjast um Englandsmeistaratitilinn en félagið hampaði honum síðast árið 2013.

„Það var klárlega gott andrúmsloft í kringum United síðustu vikurnar og tilhugsunin um að fá Paul Pogba og Marcus Rashford til baka í liðið gefur stuðningsmönnum von,“ segir Keane og heldur áfram.

„En United á enn langt í land. Þeir eru langt á eftir Manchester City og Liverpool. Það eru klárlega betri teikn á lofti en fyrir 6-12 mánuðum. Nýjustu leikmenn liðsins hafa aðlagast vel og eiga bara eftir að verða betri með tímanum.“

„Ef það verður byrjað að spila aftur og Man Utd nær að ljúka tímabilinu vel, versla einn til tvo mjög góða leikmenn fyrir næsta tímabil þá er það stórt skref í rétta átt en það er enn töluvert langt í bestu liðin,“ segir Keane.

Keane lék fyrir Manchester United frá 1993-2005 og hampaði enska meistaratitlinum sjö sinnum auk þess að vinna Meistaradeild Evrópu einu sinni og enska bikarinn fjórum sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×