Körfubolti

Þórsarar fá til sín einn af erlendu leikmönnunum hjá Keflavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Callum Lawson í leik með Arizona Christian í NAIA háskóladeildinni þar sem hann skoraði yfir tuttugu stig í leik.
Callum Lawson í leik með Arizona Christian í NAIA háskóladeildinni þar sem hann skoraði yfir tuttugu stig í leik. Mynd/ACU Firestorm

Callum Lawson hefur samið við Þór frá Þorlákshöfn fyrir næstu leiktíð í Domino´s deild karla í körfubolta.

Hafnarfréttir segja frá því sínir menn séu búnir að semja við þennan 24 ára breska leikmann. Hann fer því frá Keflavík og í Þorlákshöfn en verður áfram í Domino´s deildinni.

Callum Lawson kom til Keflavíkur um áramótin eftir að hafa spilað með sænska liðinu Umeå fyrir áramótin.

Hjá Umeå liðinu var Callum Lawson með 8,4 stig og 4,3 fráköst að meðaltali í sextán leikjum.

Lawson hækkaði stigaskor sitt með Keflavíkurliðinu þar sem hann var með 12,4 stig að meðaltali í leik.

Síðasti leikur Callum Lawson með Keflavík var einmitt á móti Þór Þorl. þar sem hann skoraði 14 stig og hitti úr 6 af 7 skotum sínum. Besti leikur hans kom í leiknum á undan á móti Fjölni þar sem Callum Lawson var með 35 stig á tæpum 26 mínútum.

Lawson lék með Arizona Christian í NAIA háskóladeildinni þar sem á lokári sínu var hann með 21,6 stig og 9,2 fráköst að meðaltali í leik auk þess að hitti úr 42 prósent þriggja stiga skota sinna. Lawson á líka að baki leiki með tuttugu ára landsliði Breta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×