Enski boltinn

Fimmtán ár í dag síðan að Íslendingur vann ensku úrvalsdeildina í fyrsta sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard fagnar öðru marka sinna á móti Bolton 30. apríl 2005 með Eiði Smára Guðjohnsen. Frank og Eiður Smári voru tveir markahæstu leikmenn Chelsea á þessu tímabili.
Frank Lampard fagnar öðru marka sinna á móti Bolton 30. apríl 2005 með Eiði Smára Guðjohnsen. Frank og Eiður Smári voru tveir markahæstu leikmenn Chelsea á þessu tímabili. Getty/Mike Egerton

30. apríl 2005 er merkisdagur í sögu Chelsea en hann er líka merkisdagur fyrir íslenska knattspyrnu.

Það var á þessum degi sem Chelsea vann sinn fyrsta meistaratitil í fimmtíu ár en það var líka á þessum degi sem Íslendingur vann ensku úrvalsdeildina í fyrsta sinn.

Chelsea tryggði sér endanlega fyrsta Englandsmeistaratitil sinn frá árinu 1955 með því að vinna 2-0 sigur á Bolton á Reebok Stadium.

Chelsea hefur síðan unnið fjóra Englandsmeistaratitla til viðbótar (2005–06, 2009–10, 2014–15 og 2016–17).

Eiður Smári Guðjohnsen náði þarna merkum tímamótum á stað þar sem hann átti mörgum mönnum mikið að þakka.

Það var nefnilega Bolton sem veðjaði á Eið Smára þegar hann var að koma til baka eftir ökklameiðslin og seldi hann síðan til Chelsea sumarið 2000.

Eiður Smári spilaði síðan mörg góð tímabil með Chelsea en liðið náði ekki að vinna deildina fyrr en á hans fimmta tímabili hjá liðinu.

José Mourinho hafði tekið við Chelsea liðinu sumarið árið og tókst því að vinna ensku úrvalsdeildina á sínu fyrsta tímabili.

Í fyrstu leit út fyrir að Portúgalinn ætlaði að treysta á aðra framherja en Eið Smára því fyrir tímabilið keypti José Mourinho bæði sóknarmennina Didier Drogba og Mateja Kezman auk þess að hinn sókndjarfi Arjen Robben kom frá PSV.

Eiður Smári stóð hins vegar af sér alla samkeppni og spilaði 37 af 38 deildarleikjum Chelsea. Eiður Smári var í byrjunarliðinu í 30 leikjanna þar á meðal í leiknum á móti Bolton þar sem Chelsea tryggði sér titilinn.

Í þessum 37 leikjum var Eiður Smári Guðjohnsen með 12 mörk og 6 stoðsendingar. Það var aðeins Frank Lampard (13 mörk) sem skoraði fleiri deildarmörk en Eiður.

Eiður Smári var siðan í fjórða sæti í stoðsendingum á eftir þeim Frank Lampard (16 stoðsendingar), Arjen Robben (9) og Damien Duff (7).

Frank Lampard átti magnað tímabil með 13 mörk og 16 stoðsendingar og það var einmitt hann sem tryggði Chelsea liðinu endanlega titilinn með því að skora bæði mörkin í þessum 2-0 sigri á Bolton.

Enginn annar er Frank Lampard (þáttur í 29 mörkum) kom að fleiri mörkum Chelsea liðsins þetta tímabil en Eiður Smári var annar með 18 mörk. Það eitt sýnir mikilvægi Eiðs Smára fyrir José Mourinho og Chelsea liðið á þessu sögulega tímabili.

Chelsea átti reyndar eftir þrjá leiki á tímabilinu en eftir sigurinn á Bolton gat ekkert annað lið náð þeim. Chelsea endaði síðan tólf stigum á undan næsta liði sem var Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×