Enski boltinn

Hræddir við að snúa aftur til keppni

Sindri Sverrisson skrifar
Sergio Agüero hefur lítinn áhuga á að spila fótbolta feli það í sér hættu að smita fjölskylduna af Covid-19.
Sergio Agüero hefur lítinn áhuga á að spila fótbolta feli það í sér hættu að smita fjölskylduna af Covid-19. VÍSIR/GETTY

Sergio Agüero, markahrókur Manchester City, segir að leikmenn séu hræddir við að þurfa að snúa aftur til keppni á næstunni gangi áætlanir eftir um að ljúka leiktíðinni í ensku úrvalsdeildinni í sumar.

Keppni í Englandi var stöðvuð í mars vegna kórónuveirufaraldursins en tímabilið gæti átt eftir að halda áfram í júní þrátt fyrir faraldurinn. Í Frakklandi hefur tímabilinu verið lýst loknu, og meðalstigafjöldi í leikjum látinn ráða lokastöðu, og í Hollandi var það strikað út og ákveðið að hefja tímabilið að nýju eftir sumarið. Englendingar halda hins vegar í vonina um að geta spilað og klárað tímabilið, en það leggst illa í Agüero:

„Meirihluti leikmanna er hræddur vegna þess að menn eiga fjölskyldur, þeir eiga börn og ungabörn,“ sagði Agüero við El Chiringuito.

„Þegar við snúum aftur get ég ímyndað mér að við verðum mjög órólegir. Við munum fara mjög varlega og um leið og einhver veikist mun maður hugsa; „Hvað gerðist þarna?“ Þetta hræðir mig,“ sagði Agüero.

Í gær höfðu yfir 26.000 manns látist í Bretlandi vegna kórónuveirunnar og yfir 165.000 manns smitast.

Í dag ætla ensku úrvalsdeildarfélögin að ræða áætlanir um að hefja æfingar og keppni að nýju, en Agüero segir leikmenn þá þurfa að taka áhættu nema að bóluefni fáist.

„Það er fólk með sjúkdóminn sem sýnir ekki einkenni og það getur smitað mann. Maður getur verið smitaður án þess að vita nokkuð um það,“ benti Agüero á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×