Fótbolti

Var svo drukkinn að hann man ekki eftir fagnaðarlátunum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klopp með einn kaldann eftir titilinn 2012.
Klopp með einn kaldann eftir titilinn 2012. vísir/getty

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool og fyrrum stjóri Borussia Dortmund, segir að hann muni varla eftir fagnaðarlátunum þegar Dortmund fagnaði tvennunni eftir tímabilið 2011/2012. Hann segist hafa verið það drukkinn.

Klopp stýrði Dortmund til sigurs í þýsku úrvalsdeildinni 2010/2011 en tímabilið eftir vann liðið bæði deildina og bikarinn. Klopp segist hafa drukkið of marga bjóra í bæði skiptin - sér í lagi eftir tvennuna.

„Þetta voru mjög frumleg fagnaðarlæti. Þetta var frábært. Ég var mjög drukkinn árið 2011 en árið 2012, eftir tvennuna, þá tók ég varla eftir fagnaðarlátunum,“ sagði Klopp við Twitter-síðu Dortmund.

„Þetta var rosalegt, svo gott partí og þú getur séð hvað alkóhól getur gert fólki. Ekki drekka, því annars taparðu minningum af mikilvægum tímapunktum í þínu lífi,“ sagði léttur Klopp.

Klopp hætti með Dortmund árið 2015 en ári síðan tók hann við liði Liverpool. Þar hefur hann gert góða hluti; orðið Evrópumeistari og á góðri leið með að vinna ensku úrvalsdeildina þetta tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×