Enski boltinn

De Bruyne gæti farið ef bannið heldur

Sindri Sverrisson skrifar
Kevin de Bruyne hefur verið hjá Manchester City frá árinu 2015.
Kevin de Bruyne hefur verið hjá Manchester City frá árinu 2015. VÍSIR/GETTY

Kevin de Bruyne, miðjumaður Manchester City, segist ætla að ákveða sína framtíð út frá því hvort að tveggja ára bann félagsins frá Evrópukeppnum haldi.

UEFA setti City í bann fyrir alvarleg brot á reglum um fjárhagslega háttvísi en félagið hefur áfrýjað til alþjóða íþróttadómstólsins, CAS. Vonast var eftir niðurstöðu þar í sumar.

„Þegar að niðurstaða í málinu liggur fyrir þá mun ég fara vandlega yfir stöðuna,“ sagði De Bruyne við belgíska blaðið Het Laatste Nieuws.

„Tvö ár eru langur tími en ég gæti séð til með eitt ár. Núna er ég bara að bíða. Félagið sagðist ætla að áfrýja og er nánast 100% á því að það sé í fullum rétti. Þess vegna bíð ég nú bara þess sem verða vill. Ég treysti mínu félagi,“ sagði De Bruyne.

Þessi 28 ára gamli, belgíski landsliðsmaður kom til City frá Wolfsburg í Þýskalandi sumarið 2015 fyrir 55 milljónir punda sem þá var metverð í sögu Englandsmeistaranna, og hefur verið einn albesti leikmaður úrvalsdeildarinnar síðustu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×