Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu vinnur nú að því að slökkva sinueld sem kviknaði á suðaustur við Saltvík á Kjalarnesi á þriðja tímanum í dag.
Útkallið barst klukkan 14:40 og voru slökkviliðsmenn að komast á vettvang þegar Vísir náði tali af varðstjóra upp úr klukkan 15:30. Erfitt er að komast að svæðinu þar sem sinan brennur, til að mynda ekki hægt að komast með slökkvibílana.

Bílunum hefur verið lagt við meðferðarheimilið Vík. Þaðan er labbað á vettvang en einnig farið á sexhjóli með lítinn vatnstank sem notaður er til þess að bleyta í en annars er þetta handavinna við að berja eldinn niður með klöppum að sögn varðstjóra.
Aðspurður hvort þetta sé mikill eldur segir hann að þetta séu um 200 metra langar tungur. Engin hætta er á að eldurinn teygi sig eitthvað í byggð.
Alls eru sex manns við vinnu á vettvangi, fjórir frá slökkviliðsstöðinni í Mosfellsbæ og tveir úr viðbragðsliði slökkviliðsins á Kjalarnesi.
Hér fyrir neðan má sjá fleiri myndir af vettvangi brunans.



