Lendi íslenskir ferðalangar í sóttkví vegna kórónuveirunnar erlendis en veikjast ekki sjálfir gætu þeir þurft að standa undir mögulegum kostnaði sjálfir. Aðeins þeir sem veikjast af völdum kórónuveirunnar erlendis eiga vísan rétt á bótum frá tryggingum.
Tugir þúsunda manna hafa smitast af nýju afbrigði kórónuveiru sem kom fyrst upp í borginni Wuhan í Kína í desember og um þrjú þúsund hafa látist. Að minnsta kosti eitt smit hefur verið staðfest í fleiri en þrjátíu löndum, þar á meðal þrjú á Íslandi.
Víða hafa heilbrigðisyfirvöld skipað eða ráðlagt fólki að fara í sóttkví hafi það verið á ferð þar sem veiran er sem útbreiddust. Á Íslandi hafa yfirvöld beðið fólk sem hefur ferðast um nokkur skilgreind hættusvæði, þar á meðal Norður-Ítalíu, um að halda sig heima í fjórtán daga eftir að það yfirgefur þau.
Sjá einnig: Réttur ferðalanga vegna kórónuveirunnar ólíkur eftir aðstæðum
Þrátt fyrir að sóttvarnalæknir mæli með því að Íslendingar sleppi „ónauðsynlegum ferðalögum“ til skilgreindra hættusvæða bera þeir sem þegar hafa keypt sér far þangað kostnaðinn af því sjálfir viljir þeir hætta við. Tryggingafélög sem Vísir hafði samband við í síðustu viku sögðu þannig að ferðatryggingar bæti almennt ekki tjón fólks nema opinber höft verði sett á vegna sóttkvíar.
Þurfa að vera veik til að fá kostnað bættan
Sóttvarnalæknir bað fólk sem er á ferðalagi og finnur fyrir einkennum um að fresta heimkomu í síðustu viku. Þá voru tíu Íslendingar á meðal gesta hótels á Tenerife á Kanaríeyjum sem voru settir í sóttkví eftir að ítalskur læknir sem gisti á hótelinu greindist með kórónuveirusmit.
Réttur þeirra sem lenda í sóttkví á ferðalagi erlendis fer eftir aðstæðum og tryggingarfélagi fólks. Þeir sem veikjast af völdum veirunnar eiga rétt á bótum vegna sjúkrakostnaðar erlendis og aukins kostnaðar samkvæmt upplýsingum á vefsíðum tryggingafélaganna Varðar, VÍS og Sjóvár. Þar á meðal getur verið auka dvalar- og heimferðarkostnaður.
Staða þeirra sem lenda í sóttkví en veikjast ekki sjálfir er þrengri. Hjá hvorki Verði né Sjóvá ná tryggingar þannig yfir aukakostnað vegna sóttkvíar.
„Viðbótarkostnaður vegna sóttkvíar þegar það eru ekki nein veikindi til staðar eru því miður ekki partur af bótasviðinu. Þú þarft að vera veikur og það þarf að vera kostnaður sem tengist þeim veikindum beint,“ segir Sigurður Óli Kolbeinsson, framkvæmdastjóri tjóna- og stofnstýringar hjá Verði, við Vísi.
Á vef VÍS kemur þó fram að ef hótel fólks er sett í sóttkví og það þarf að framlengja dvöl skoði félagið hvert tilfelli fyrir sig. Fyrirtækið hvetur fólk í þeirri stöðu til að halda utan um kostnað og hafa samband við það sem fyrst.