Erlent

Geta ekki stöðvað ólöglegt partý þar sem þúsundir hafa komið saman

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögreglan í Frakklandi vaktar svæðið.
Lögreglan í Frakklandi vaktar svæðið. Getty/Fabien Pallueau

Lögreglunni í Frakklandi hefur reynst erfitt að stöðva fjölmennt en ólöglegt partý í grennd við borgina Rennes í Frakklandi, sem staðið hefur yfir frá því á fimmtudag.

BBC greinir frá en um svokallað „rave“ er að ræða. Segir að gestirnir séu hátt í 2.500 í þessu kolólöglega partý-i en strangar útgöngubannsreglur eru í gildi í Frakklandi á milli átta á kvöldin og sex á morgnana.

Partý-ið er haldið í vöruskemmu en í yfirlýsingu frá yfirvöldum á staðnum segir að lögregla hafi reynt að vísa gestum frá, en í stað þess fengið óblíðar móttökur.

Þannig hafi kastast í kekki á milli veislugesta og lögreglumanna. Veislugestir hafi kastað hlutum í lögreglu og kveikt í bíl. Þrír lögreglumenn hafa slasast í aðgerðunum.

Partý-ið hefur staðið yfir frá því á fimmtudag og segir í frétt BBC að sumir gestir ætli sér að vera á staðnum til þriðjudags.

Haft er eftir einum veislugesti að afar fáir hafi virt fjarlægðartakmörk vegna Covid-19. Þá er haft eftir öðrum að svo virðist sem að veislan hafi verið vel skipulögð.

Gerald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, sat sérsakan neyðarfund vegna veislunnar seint í gærkvöldi, en lögregla vaktar svæðið vel.

2,6 milljónir manna hafa greinst með kórónuveiruna frá því í vor í Frakklandi, alls hafa rétt tæplega 65 þúsund látist af völdum Covid-19 þar í landi.


Tengdar fréttir

Hundrað þúsund lög­reglu­menn munu koma í veg fyrir sam­komur

Yfirvöld í Frakklandi hafa ákveðið að setja hundrað þúsund lögreglumenn í viðbragðsstöðu á gamlárskvöld til þess að sporna gegn samkomum og fögnuðum. Útgöngubann er í gildi frá klukkan 20 og mun lögregla vera með sýnilega viðveru á almenningssvæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×