Erlent

Aftaka Lisu Montgomery sett aftur á dagskrá

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Verði af aftöku Montgomery verður hún fyrsta konan til að vera tekin af lífi á alríkisstigi Bandaríkjanna í tæp 70 ár.
Verði af aftöku Montgomery verður hún fyrsta konan til að vera tekin af lífi á alríkisstigi Bandaríkjanna í tæp 70 ár. AP

Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum hefur ákveðið að aflétta tímabundinni frestun réttaráhrifa dauðadóms yfir hinni 52 ára Lisu Montgomery, einu konunni sem situr á dauðadeild í bandarísku alríkisangelsi.

BBC greinir frá. Aftaka Montgomery er á dagskrá í þessum mánuði. Fari hún fram verður hún fyrsta konan í 67 ár sem verður tekin af lífi á alríkisstigi.

Aftaka Montgomery átti að fara fram í síðasta mánuði, en var frestar þar sem lögmenn hennar sýktust af Covid 19. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna frestaði aftökunni þá til 12. janúar, en lögmenn hennar töldu að ekki væri unnt að finna nýja dagsetningu með frestun réttaráhrifa væri í gildi og var lægra settur dómstóll þeim sammála.

Nú hefur áfrýjunardómstóll hins vegar ákveðið að aflétta frestuninni, með þeim afleiðingum að hægt verður að setja aftökuna aftur á dagskrá fangelsismálayfirvalda í Bandaríkjunum. Lögmenn Montgomery hafa þegar sagst ætla að setja fram beiðni um að dómstóllinn endurskoði afstöðu sína.

Myrti ólétta konu og rændi barninu

Árið 2007 var Montgomery dæmd fyrir morð á ungri ólettri konu árið 2004. Sú hét Bobbie Jo Stinnet og var komin átta mánuði á leið þegar hún og Montgomery kynntust á spjallborði á netinu. Samþykkti Stinnet að selja Montgomery hund sem sú síðarnefnda myndi sækja til hennar.

Þegar Montgomery var komin inn á heimili Stinnet kyrkti hún hana til dauða, skar hana upp og rændi ófæddu barni hennar úr móðurkviði með það fyrir augum að ala það upp sjálf. Barnið, sem reyndist vera stúlka, komst lífs af og er 16 ára í dag.

Kviðdómur í máli Montgomery komst að einróma niðurstöðu um að hún skyldi dæmd til dauða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×