Körfubolti

Ágúst H. Guðmundsson er látinn

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ágúst H. Guðmundsson.
Ágúst H. Guðmundsson. Heimasíða Þórs/Páll Jóhannesson

Ágúst Herbert Guðmundsson, fyrrum körfuboltaþjálfari, er látinn, 53 ára að aldri, eftir þriggja ára baráttu við MND sjúkdóminn.

Ágúst markaði djúp spor í sögu Íþróttafélagsins Þórs á Akureyri þar sem hann er goðsögn í körfuboltasamfélaginu norðan heiða eftir að hafa verið í lykilhlutverki í starfi körfuknattleiksdeildar félagsins undanfarna áratugi.

Á þjálfaraferli sínum kom hann að þjálfun nær allra flokka Þórs, allt frá yngstu flokkum og upp í meistaraflokk en Ágúst hætti þjálfun árið 2017 þegar sjúkdómurinn hafði tekið mikinn toll af honum.

Ágúst náði góðum árangri með lið Þórs í meistaraflokki í efstu deild en sérstaklega náði hann góðum árangri í yngri flokka þjálfun. Hann þjálfaði drengjaflokk Þórs sem varð Íslandsmeistari árið 1998 en það var fyrsti meistaratitill Akureyrarliðsins í körfubolta karlamegin. Hann þjálfaði svo margrómaðan 2001 árgang Þórs sem vann fjölda Íslandsmeistaratitla í yngri flokkum auk þess að vinna Scania Cup.

Hann hlaut silfur- og gullmerki Íþróttafélagsins Þórs fyrir sín störf í þágu félagsins og hefur einnig hlotið gullmerki KKÍ, Körfuknattleikssambands Íslands, fyrir sitt framlag til íslensks körfubolta. Þá var Ágústi veitt heiðursviðurkenning Frístundaráðs Akureyrar árið 2017 fyrir störf sín í þágu körfuboltans.

Ágúst þjálfaði ekki bara körfubolta hjá Þór heldur var hann virkur í öllu starfi körfuknattleiksdeildarinnar og veitti stjórn deildarinnar ráðgjöf til hinsta dags.

Birt voru minningarorð á heimasíðu Þórs í dag.

Ágúst lætur eftir sig eiginkonu og þrjú börn.

Þeirra á meðal er Júlíus Orri Ágústsson sem hefur leikið lykilhlutverk í liði Þórs í Dominos deildinni á undanförnum árum þrátt fyrir ungan aldur.


Tengdar fréttir

MND sjúklingar berjast fyrir nýjustu lyfjum

Formaður MND félagsins gagrýnir harðlega að ný lyf sem reynst hafa sjúklingum vel fáist ekki samþykkt og séu því ófáanleg hér á landi. Barist er fyrir því að lyfin fáist á Íslandi. Maður sem getur hvorki borðað né drukkið og á erfitt með mál og hreyfingu vegna sjúkdómsins er meðal þeirra sem kallar eftir betri lyfjum og rannsóknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×