Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Í frétt blaðsins kemur fram að árið 2019 hafi verið seldar hátt í 23 milljónir lítra en í fyrra hafi selst alls um 27 milljónir lítra.
Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir í samtali við blaðið að kórónuveirufaraldurinn skýri aukninguna að verulegu leyti.
Færri hafi þannig farið um Fríhöfnina en á venjulegu ári og barir og veitingastaðir hafi sætt takmörkunum og lokunum lungann úr árinu.
Stærsti einstaki dagurinn í Vínbúðunum á síðasta ári var 30. desember þegar 43.700 viðskiptavinir komu í búðirnar og seldir voru 286 þúsund lítrar. Næststærsti dagurinn var Þorláksmessa þegar 256 þúsund lítrar seldust.