Erlent

Búið að ákæra sjötíu og búist við hundruð ákæra til viðbótar

Samúel Karl Ólason skrifar
Steven D'Antuono, yfirmaður FBI í Washington DC, og Michael Sherwin, ríkissaksóknari.
Steven D'Antuono, yfirmaður FBI í Washington DC, og Michael Sherwin, ríkissaksóknari. AP/Sarah Silbiger

Búið er að ákæra rúmlega 70 manns vegna árásarinnar á þinghús Bandaríkjanna í síðustu viku en líklegt er að hundruð eða jafnvel þúsundir verði að endingu ákærðir. Meðal annars stendur til að ákæra fólk fyrir uppreisnaráróður, fyrir að fara inn í þinghúsið í leyfisleysi og morð.

Fimm manns dóu vegna árásarinnar. Þar á meðal lögregluþjónn sem sagður er hafa fengið slökkvitæki í höfuðið og kona sem skotin var af löggæslumanni þegar hún var að reyna að brjóta sér leið inn í þingsal, þar sem vopnaðir menn stóðu vörð.

Michael Sherwin, ríkissaksóknari Washington DC, varaði þó við því á blaðamannafundi í kvöld að rannsókn gætu tekið langan tíma. Þetta væri í raun fordæmalaus rannsókn þar sem allt þinghúsið væri vettvangur glæps.

Sérstakri athygli er beint að verstu brotunum og brotum þar sem vopn komu við sögu.

Hér má hlusta á hluta blaðamananfundar Sherwin í kvöld.

Sherwin sagði einnig að búið væri að bera kennsl á minnst 170 manns sem taldir eru hafa brotið af sér þegar múgur réðst á þinghúsið með því markmiði að stöðva formlega staðfestingu niðurstaða forsetakosninganna sem haldnar voru í nóvember og Joe Biden vann.

Verið er að rannsaka hvort einhverjir aðilar hafi ætlað sér að beita þingmenn og jafnvel varaforseta Bandaríkjanna ofbeldi.

Steven D’Antuono, yfirrmaður Alríkislögreglu Bandaríkjanna í Washington DC, segir að stofnunin leggi mikið púður í rannsóknina og að gífurlega mikið af upplýsingum hafi borist frá almenningi. Margir sem ruddust inn í þinghúsið birtu myndir og myndbönd af því á netinu, sem hafa verið notuð til að bera kennsl á þá.

Þeirri vinnu verður haldið áfram. Þó fólkið hefði farið aftur heim sagði D’Antuono að útsendarar FBI myndu banka upp á hjá þeim.

Í frétt CNN segir að verið sé að skoða að bæta einhverjum þeirra sem tóku þátt í árásinni á þinghúsið á lista yfir þá sem mega ekki ferðast með flugvélum. Bandarískir þingmenn hafa kallað eftir því á undanförnum dögum.


Tengdar fréttir

Segist enga ábyrgð bera

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir gífurlega reiði í Bandaríkjunum vegna þess að fulltrúadeild þingsins undirbúi að kæra hann aftur fyrir embættisbrot. Að þessu sinni er verið að kæra hann fyrir að hvetja fólk til uppreisnar.

Þing­maður smitaður eftir á­rásina á þing­húsið

Pramila Jayapal, þingmaður demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, hefur smitast af kórónuveirunni. Jayapal segir frá því á Twitter að hún hafi smitast í kjölfar þess að hafa ásamt öðrum þingmönnum verið flutt í skjól, í lokað herbergi, þegar múgur réðst á bandaríska þinghúsið í síðustu viku.

Búið að hand­taka á­berandi þátt­tak­endur í ó­eirðunum

Alríkissaksóknarar hafa ákært tvo einstaklinga til viðbótar í tengslum við óeirðirnar í bandaríska þinghúsinu sem fram fóru á miðvikudag. Um er að ræða tvo karlmenn sem vakið hafa mikla athygli fyrir þátt sinn í atburðunum en ljósmyndir af þeim á göngum þinghússins komust fljótt í mikla dreifingu um allan heim.

„Á þessum tímapunkti hélt ég að ég yrði drepin“

Fjöldi blaðamanna og ljósmyndara var í og við bandaríska þinghúsið á miðvikudag og upplifði þá ótrúlegu atburðarás þegar æstur múgur, stuðningsmenn Donalds Trump fráfarandi Bandaríkjaforseta, réðst inn í húsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×