Erlent

Frakkar herða að­gerðir enn frekar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jean Castex forsætisráðherra Frakklands heimsækir sjúkrahús í Saint-Etienne en önnur bylgja faraldursins ríður nú yfir landið.
Jean Castex forsætisráðherra Frakklands heimsækir sjúkrahús í Saint-Etienne en önnur bylgja faraldursins ríður nú yfir landið. Vísir/EPA

Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands, kynnti í dag hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins sem virðist ekki á undanhaldi í landinu. Útgöngubann er nú í gildi frá klukkan sex á kvöldin til klukkan sex á morgnanna. Aðgerðirnar taka gildi á laugardag.

Frá því í desember hefur útgöngubann verið í gildi frá klukkan átta á kvöldin til sex á morgnanna en forsætisráðherrann sagði í tilkynningu í dag að það virtist ekki bera árangur og því þyrfti að herða reglurnar. Hann sagði ástandið í landinu alvarlegt en enn greinast þúsundir dag hvern. Í dag greindust rúmlega 21 þúsund manns smitaðir af veirunni.

Meira en 69 þúsund manns hafa dáið af völdum veirunnar í Frakklandi. Frakkland er þar með sjöunda landið í heiminum þegar dauðsföll vegna veirunnar eru talin.

Aðgerðirnar munu gilda í minnst fimmtán daga og mun fólk því þurfa að halda sér heima eftir klukkan sex á kvöldin, nema það sé á leiðinni heim úr skóla eða vinnu. Allar búðir og aðrir vinnustaðir munu loka vegna aðgerðanna frá og með laugardeginum, utan framlínuvinnustaða.

Þessar aðgerðir hafa þegar tekið gildi í nokkrum héruðum í austurhluta landsins, sem hafa orðið hvað verst úti í faraldrinum á undanförnum vikum. Samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum í Frakklandi hefur það þegar borið árangur en þar hefur daglegum smitum fækkað.

Fleiri aðgerðir munu taka gildi á laugardag en þá munu allir sem ferðast til landsins frá löndum utan Evrópusambandsins þurf að sýna fram á neikvætt covid-19 próf sem tekið hefur verið innan 72 klukkutíma. Þá mun fólk þurfa að vera í einangrun í sjö daga og fara í aðra skimun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×