Bandaríska lögfræðistofan Hagens Berman höfðar málið gegn netverslunarrisanum Amazon fyrir hönd neytenda í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna. Amazon er eini sakborningurinn, en bókaútgefendurnir Penguin Random House, Hachette, HarperCollins, MacMillan og Simon & Schuster eru einnig sögð koma að verðsamráðinu.
Samkvæmt lögfræðingum Hagens Berman eiga útgefendurnir í samráði um að halda verði á rafbókum hærra en það ætti að vera með réttu. Alls selur Amazon níu af hverjum tíu rafbókum í Bandaríkjunum og umsvif fyrirtækisins á markaðnum því gríðarleg.
Sama lögfræðistofa vann sambærilegt mál gegn Apple og stóru bókaútgáfunum fimm fyrir tíu mánuðum og kostaði dómurinn Apple 450 milljónir dala. Samkvæmt hópmálsókninni nú lækkaði verð í kjölfarið en fór svo aftur hækkandi árið 2015 þegar Amazon gerði nýja samninga við útgáfurnar.
Meint brot Amazon á samkeppnislögum á rafbókamarkaði eru sömuleiðis til rannsóknar hjá saksóknurum í Connecticut-ríki. Dómsmálaráðherra ríkisins sagði á miðvikudag að Amazon hefði nú þegar afhent ríkinu öll gögn sem tengjast samskiptum við útgáfurnar.